Rekstrartekjur Sjóðklæðagerðarinnar hf., sem framleiðir fatnað undir merkjum 66° Norður, drógust saman um 12 % á árinu. Þetta kemur fram í samstæðureikningi félagsins fyrir síðasta ár.

Tekjur félagsins námu 4,05 milljörðum króna í ár en þær voru 4,60 milljarðar árið 2019. Í skýrslu stjórnar segir að samdrátturinn stafi aðallega af fækkun erlendra ferðamanna hingað til lands á síðasta ári sökum COVID-19. Tap félagsins jókst um 33 milljónir á milli ára og nam 242 milljónum í lok árs.

EBIDTA hagnaður félagsins nam um 388 milljónum króna sem er 15% aukning frá árinu áður. Afskriftir fastafjármuna námu um 487 milljónum króna á árinu og þar af voru afskriftir vegna leigueigna um 320 milljónir.

Launa- og starfsmannakostnaður lækkaði úr 1,53 milljörðum króna frá árinu 2019 í 1,25 milljarða á síðasta ári. Stöðugildum fækkaði um 101 á árinu og voru 284 í árslok. Þá er greint frá því að hlutabótaleið stjórnvalda hafi verið nýtt til þess að draga úr kostnaði og mæta minni eftirspurn.

Eignir námu 6,29 milljörðum króna í lok árs og þar af var eigið fé félagsins um 2,73 milljarðar. Eiginfjárhlutfall þess er um 43,3%. Á árinu var Molden Enterprises Ltd. dæmt til að greiða Sjóklæðagerðinni 172 milljónir króna auk dráttarvaxta en krafan hefur ekki verið færð í efnahagsreikning félagsins vegna óvissu um hvort hægt sé að innheimta hana.

Hjónin Bjarney Harðardóttir og Helgi Rúnar Óskarsson eru eigendur félagsins, en Helgi er jafnframt forstjóri 66° Norður.