Tekjur Actavis plc, móðurfélags Actavis á Íslandi, jukust um 57% og námu 2,01 milljörðum bandaríkjadala samanborið við 1,29 milljarð dala á þriðja ársfjórðungi 2012. Hagnaður á hlut (diluted earnings per share) á þriðja ársfjórðungi 2013 hækkaði um 55% í 2,09 dali samanborið við 1,35 dali í þriðja ársfjórðungi í fyrra. Þessar niðurstöður eru án áhrifa kaupa Actavis á Warner Chilcott 1. október síðastliðinn.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (adjusted EBITDA) jókst um 61% og nam 489,2 milljónum Bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi 2013 samanborið við 304,6 milljónir dala í þriðja ársfjórðungi 2012.

Tekjur Actavis Pharma, sem er samheitalyfjasvið fyrirtækisins (þ.m.t. Medis), jukust um 69% og námu 1,55 milljarði bandaríkjadala á þriðja ársfjórðungi 2013, í kjölfar öflugrar markaðsetningar nýrra samheitalyfja á alþjóðamarkaði. Fjárfesting í þróun og rannsóknum samheitalyfja á alþjóðavísu nam 111,1 milljón dala. Fyrstu níu mánuði ársins setti félagið 509 vörur á samheitalyfjasviði á markað og sótti um yfir 980 markaðsleyfi um allan heim.

Tekjur á sérlyfjasviði jukust um 27% á þriðja ársfjórðungi 2013 og námu 153,8 milljónum dala í kjölfar árangursríkrar markaðsetningar nýrra lyfja í Bandaríkjunum. Fjárfesting í þróun og rannsóknum á sérlyfjasviði var 47,7 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi 2013. Í kjölfar kaupa Actavis á írska lyfjafyrirtækinu Warner Chilcott er félagið nú í sterkri stöðu á sviði sérlyfja á alþjóðavísu, sérstaklega þegar kemur að heilsu kvenna.