Í desember fjölgaði gistinóttum á hótelum um 3% frá sama mánuði árið áður, og voru þær í heildina 299.400 að því er Hagstofan greinir frá. Herbergjanýtingin lækkaði þó á milli ára, um 5,4 prósentustig og fór hún niður í 58,0%. Flestar, eða 72% allra gistinátta, voru á höfuðborgarsvæðinu, en í mánuðinum fjölgaði gistinóttum á Suðurnesjum um 27% og 18% á Norðurlandi.

Ef hins vegar er horft á allt árið 2017 nemur fjölgunin á Suðurnesjum 45% og fór heildarfjöldinn upp í 301 þúsund gistinætur. Á sama tíma jókst framboðið á Suðurnesjum um 29,7% og herbergjanýtingin jókst 1,8%.

Tekjur af Airbnb samsvara 15,5% af tekjum gististaða

Áætlar hagstofan að heildarfjöldi gistinátta á öllum tegundum gististaða hafi á árinu verið um 10,5 milljónir, en þar af hafi gistinætur í gegnum Airbnb verið um 1,7 milljón eða sem samsvarar 16,2% allra gistinátta.

Út frá gögnum um virðisaukaskattskil jukust tekjur þeirra sem bjóða gistirými í gegnum deilivefsíðuna um tæplega 3 milljarða á árinu, fóru skráðar tekjur upp úr 11,8 milljörðum upp í 14,7 milljarða. Rekstur gististaða velti hins vegar tæplega 95 milljörðum á tímabilinu nóvember 2016 til október 2017. Það þýðir að tekjur af Airbnb samsvara um 15,5% af heildartekjum hefðbundinna gististaða.