Tekjur af erlendum ferðamönnum á þriðja ársfjórðungi námu tæplega 170 milljörðum króna og drógust saman um 13% í samanburði við sama ársfjórðung í fyrra. Tekjur af farþegaflutningum með flugi lækkuðu um 29% á meðan önnur neysla ferðamanna dróst saman um 4% á sama tímabili. Hagstofan greinir frá þessu á vef sínum .

Gistinóttum í október fækkaði um 5% samanborið við sama mánuð í fyrra. Heildarfjöldi gistinátta í október var 800 þúsund í ár en voru 843 þúsund í fyrra. Gistinætur greiddar í gegnum vefsíður á borð við Airbnb drógust saman um 20%, eða um 30 þúsund gistinætur, á meðan gistinætur á hótelum jukust um 3% á sama tímabili.