Heildarneysla erlendra ferðamanna á Íslandi jókst um 79% milli áranna 2009 og 2013. Neyslan var 165,1 milljarður króna á árinu 2013. Þetta kemur fram í nýjum ferðaþjónustureikningum Hagstofu Íslands sem birtir voru í dag.

Sé neysla erlendra ferðamanna árið 2013 sundurliðuð eftir atvinnugreinum sést að um fjórðungur neyslunnar, eða 40,4 milljarðar króna, var vegna flugferða. 32,3 milljarðar runnu úr vösum erlendra ferðamanna til hótela og annarrar gistiþjónustu. Hinir erlendu ferðamenn vörðu 6,8 milljörðum króna í afþreyingu og tómstundarstarfsemi.

Tekjur veitingastaða af erlendum ferðamönnum voru 15,1 milljarður króna árið 2013. Eyðsla erlendra ferðamanna á veitingastöðum tvöfaldaðist á fjórum árum. Árið 2009 námu tekjurnar 7,8 milljörðum.

Nýtingarhlutfallið vex hægt

Hótelherbergjum á Íslandi fjölgaði um næstum því 40% frá árinu 2009 til ársins 2013. Herbergin voru rúmlega 10.000 árið 2009, en rúmlega 14.000 árið 2013. Rúmlega 34.000 svefnpláss voru í íslenskum hótelum og gistiheimilum á því ári.

Nýtingarhlutfall hótelherbergja á Íslandi fer hægt vaxandi samhliða fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi. Nýtingarhlutfallið var 46% árið 2009, en 54% árið 2013.