Þrátt fyrir að tekjur ríkissjóðs hafi verið meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir þá voru tekjur af sköttum og tryggingagjöldum minni en fjárlög mæltu fyrir um og munaði um 3,3 milljörðum króna. Þannig skiluðu eignaskattar 1,7 milljörðum króna minna í ríkiskassann en fjárlög spáðu fyrir um og tryggingagjöld voru 2,1 milljarði minni en ætlað var. Mestur munurinn er þó annars vegar í fjármagnstekjuskatti og hins vegar skatti á lögaðila.

Fjármagnstekjuskattur skilaði 20,4 milljörðum króna til ríkissjóðs í fyrra, sem er einum 11,5 milljörðum lægri fjárhæð en fjárlög gerðu ráð fyrir og 12,4 milljörðum lægri en ríkissjóður hafði upp úr krafsinu árið 2010. Engar skýringar eru gefnar í ríkisreikningi á þessari lækkun en tekið er fram að skatthlutfall á fjármagnstekjur hækkaði úr 18% í 20% árið 2010.

Á hinn bóginn skiluðu skattar á lögaðila 33,4 milljörðum króna til ríkisins, sem er 10,4 milljörðum meira en fjárlög gerðu ráð fyrir og 15,0 milljörðum meira en þessi þáttur skilaði ríkinu árið 2010. Hækkunin skýrist meðal annars af því að tekjuskattshlutfall hjá öðrum en sameignarfélögum hækkað úr 15% í 18%, en hjá sameignarfélögum hækkaði hlutfallið úr 23,5% í 32,7%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.