Alþjóða ólympíunefndin, IOC, bindur vonir við að tekjur hreyfingarinnar vegna sjónvarpsréttinda á árabilinu 2005 til og með 2008 verði 2,5 milljarðar dollara. Þessu til viðbótar er talið að IOC fái í sinn hlut 866 milljónir dollara frá bakhjörlum og vegna aðgöngumiðasölu. Enn fremur stefnir allt í að hreyfingin beri um einn milljarð dollara úr býtum vegna samninga við kínversk fyrirtæki í tengslum við Ólympíuleikana í Peking í sumar.

Gangi þetta allt eftir skila Ólympíuleikarnir meiri tekjum en Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu. Greiðslur vegna sjónvarpsréttinda frá HM 2006 numu 1,6 milljarði dollara og aðrar tekjur voru 714 milljónir dollara. Samkvæmt fréttum Reuters stefnir allt í að greiðslur vegna sjónvarpsrétts og greiðslna frá öðrum fjölmiðlum vegna Vetrarólympíuleikanna í Vancouver 2010 og Ólympíuleikanna í London 2012 verði yfir þrír milljarðar dollara, sem er 40% tekjuaukning frá fyrri leikum í Peking og Tórínó. IOC metur það hins vegar svo að tekjurnar verði nær 3,3 milljörðum dollara.

Alþjóða ólympíunefndin segir að 15% af þessum tekjum komi frá samningum við nýja fjölmiðla, eins og internetfjölmiðla og vegna útsendinga í farsíma.