Hagnaður Landsvirkjunar dróst nokkuð saman á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við sama tímabil 2015. Hagnaðurinn nam um  47,5 milljónum dollara eða 5,4 milljörðum króna en á fyrstu níu mánuðum síðasta árs var hagnaðist Landsvirkjun um 76,3 milljónir dollara.

Helsta skýringin á minni hagnaði er breyting á óinnleystum fjármagnsliðum en lækkun rekstrartekna milli ára hefur einnig nokkur áhrif. Rekstrartekjurnar námu 307,1 milljón dollara á fyrstu níu mánuðum þessa árs samanborið við 314 milljónir á sama tímabili í fyrra. Minni tekjur af raforkusölu skýrir lækkun rekstrartekna milli ára. Þær námu 254,2 milljónum á fyrstu níu mánuðum þessa árs en 261,9 milljónum á sama tímabili árið 2015.

Á þriðja ársfjórðungi námu rekstrartekjur Landsvirkjunar 100,2 milljónum dollurum eða ríflega 11,8 milljörðum króna. Þar af námu tekjur af raforkusölu tæplega 82,8 milljónum dollara eða um 9,9 milljörðum króna samanborið við 81 milljón dollara á þriðja ársfjórðungi 2015.

„Álverð hélt áfram að lækka; var 9% lægra en á sama tímabili árið áður og sögulega séð mjög lágt, en hluti raforkusamninga okkar er tengdur þróun álverðs og hafði það neikvæð áhrif á tekjur," er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í tilkynningu með uppgjörinu, sem var birt í vikunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .