*

sunnudagur, 25. október 2020
Innlent 13. ágúst 2020 14:20

Tekjur af stórnotendum minnka um 13,6%

Rekstrarhagnaður Landsnets nam 22 milljónum dollara á fyrri helmingi ársins og dróst saman um 26,5% milli ára.

Ritstjórn
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Landsnets hf. nam 13,3 milljónum dollara, sem samsvarar 1,8 milljörðum króna, á fyrri helmingi ársins samanborið við 19,8 milljónir dollara á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 22 milljónum dollara, eða rúmlega 3 milljörðum króna, og lækkaði um 7,9 milljónir dollara milli ára. Arðsemi eiginfjár á meðalstöðu eiginfjár á tímabilinu var 6,8%. 

Í skýrslu stjórnar kemur fram að gjaldskrá til stórnotenda var lækkuð tímabundið frá 1. júlí 2019 til 1. ágúst í ár. Tekjur af raforkuflutningi til stórnotenda lækkuðu um fimm milljónir dollara vegna þessa og námu 32,4 milljónum dollara á tímabilinu. Það var því 13,6% tekjusamdráttur milli ára af raforkuflutningi til stórnotenda.

Heildartekjur af flutningi drógust saman um 7% og liggur það að mestu í samdrætti á sölu til dreifiveitna og í kerfisþjónustu. Félagið var farið að merkja nokkurn samdrátt hjá þessum aðilum áður en heimsfaraldurinn fór að hafa áhrif á Íslandi.

Eignir félagsins í lok tímabilsins námu 881 milljón dollara eða 122 milljörðum króna og jukust um 28 milljónir dollara frá ármótum. Eigið fé nam 394,4 milljónum dollara, heildarskuldir 486 milljónir dollara og eiginfjárhlutfall því 44,8%. 

Sótt var fjármögnun á Private Placement markaði í Bandaríkjunum í febrúar að fjárhæð 100 milljónum dollara. Í mars var greidd lokagreiðsla af stofnláni við Landsvirkjun að fjárhæð 68 milljónum dollara. 

Landsnet er hlutafélag í 64,7% eigu Landsvirkjunar en að auki á RARIK 22,5% hlut, Orkuveita Reykjavíkur 6,8% hlut og Orkubú Vestfjarða á tæplega 6%. Hluthöfum var greiddur arður að fjárhæð 1.275 milljónum króna í mars síðastliðnum. 

Guðlaug Sigurðardóttir, fjármálastjóri Landsnets, segir afkomu fyrirtækisins vera samkvæmt áætlun og reksturinn stöðugan þrátt fyrir krefjandi ytri aðstæður. 

„Við hjá Landsneti höfum verið að vinna við krefjandi aðstæður síðustu mánuði og því er það ánægjulegt að sjá að við höfum náð að halda rekstrinum stöðugum og samkvæmt áætlun. Óveður setti svip á starfsemina í vetur og Covid-19 hefur haft áhrif bæði á okkur og viðskiptavini okkar,“ er haft eftir Guðlaugu í fréttatilkynningu Landsnets.  

„Eins og hjá öðrum eru langtímaáhrifin óljós en við hjá Landsneti fylgjumst vel með framvindunni.  Við höfum lagt áherslu á að halda verkefnunum okkar gangandi á sama tíma og við lögðum áherslu á að tryggja öryggi og heilsu starfsfólksins. Í þessum aðstæðum hefur framkvæmdum miðað vel áfram og það stefnir í að árið verði eitt af stærstu framkvæmdaárum Landsnets. Í byrjun árs sóttum við aftur fjármögnun frá Bandaríkjunum þar sem okkur var vel tekið og sýnir það vel traustið sem Landsnet hefur á fjármálamarkaði.“

Stikkorð: Landsnet