Samanlögð álagning tekjuskatts og útsvars fyrir árið 2007 hækkaði um rúm 15% frá árinu og undan og nemur alls 213,6 milljörðum króna. Árið 2006 var þessi tala 185,5 milljarðar króna, sem var hækkun um 13,4% frá árinu á undan. Alls er því álagningin rúmlega 28 milljörðum hærri fyrir árið 2007 en árið 2006. Álagðir tekjuskattar til ríkissjóðs skiptast í tekjuskatt annars vegar og fjármagnstekjuskatt hins vegar en útsvarið er tekjustofn sveitarfélaga. Útsvar til sveitarfélaga nemur alls 101,9 milljörðum króna og hækkar um 16,8% frá fyrra ári.

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir það athyglisvert að tekjur, þ.e. samanlögð laun, hlunnindi og lífeyri, á milli ára frá 2006 til 2007, hafa heldur aldrei hækkað jafn mikið allt frá árinu 1991. Þetta skýrist m.a. frá atvinnubreytingar sem hafa orðið á tímabilinu, mikil umsvif í þjóðfélaginu, innstreymi erlends vinnuafls o.s.frv., sem allt bætir við tekjurnar

Fjármagnstekjuskattur upp um 55%

Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga hækkar um 55% á milli áranna 2006 og 2007 og nemur alls 25,3 milljörðum króna samkvæmt upplýsingum um endanlega álagningu opinberra gjalda sem birtar voru í gær. Tæplega 99 þúsund manns greiða fjármagnstekjuskatt. Um 58% af skattstofni fjármagnstekjuskatts skýrist af greiðslum af söluhagnaði, arður er um 20% og vaxtatekjur um 20%

Skúli Eggert segir álagningu hafa gengið mjög vel að þessu sinni, hlutfall áætlana var svipað og árið á undan og ríflega 90% framteljandi skilaði rafrænu framtali.

Alls töldu tæplega 265 þúsund manns fram að þessu sinni, sem er fjölgun upp á um 4% og má rekja hana einkum til aðflutnings fólks. Rúmlega 33 þúsund framteljendur, eða 12,5% hafa erlent ríkisfang.

Almennan tekjuskatt, samtals 86,4 milljarða króna, greiða 178.270 einstaklingar, eða 67% framteljenda og hefur það hlutfall lækkað nokkuð frá fyrra ári. Skattgreiðsla á hvern gjaldanda hefur hækkað um 3,8 % milli ára meðan tekjuskattstofninn hækkaði um 10,5% á hvern framteljanda að meðaltali. Þetta stafar af lækkun skatthlutfallsins úr 23,75% í 22,75% í upphafi árs 2007, auk þess sem persónuafsláttur hækkaði um 10,75%.