Sala tónlistar hefur átt undir högg að sækja allt frá því að Napster, og fleiri forrit í kjölfarið, gerðu netnotendum kleift að hala niður tónlist án endurgjalds. Rúmur áratugur er liðinn síðan internetið hóf að breyta, og sumir segja eyða, undirstöðum tekjuleiða tónlistarbransans. Sama má segja um annan iðnað sem byggist á útgáfu. Kvikmyndaiðnaðurinn, bókaútgáfa og fjölmiðlar hafa allir fundið fyrir mætti internetsins.

Ráðgjafarfyrirtækið Bain & Co. birti í upphafi þessa árs skýrslu þar sem fjallað er um útgáfu á öld tækninnar. Meðfylgjandi graf, sem birtist í skýrslu Bain, sýnir afgerandi tekjuhrun tónlistarútgáfu á síðasta áratug. Margir vilja í raun kalla fyrsta áratug 21. aldarinnar Hinn týnda áratug en tekjur hafa aldrei dregist svo hratt saman, eða um 8% að meðaltali milli ára. Grafið sýnir sölu tónlistar í Bandaríkjunum á árunum 1973-2009, flokkað eftir útgáfuformi.

Lóðrétt fall

Sala tónlistar
Sala tónlistar
© None (None)

Stækka má myndina með því að smella á hana .

Allt frá því að Metallica höfðaði mál gegn Napster árið 2000 hefur verið deilt um áhrif netsins á tónlistarbransann og tónlistarmenn. Úttekt Bain bendir til að tekjur af sölu tónlistar á stafrænu formi hafi ekki náð að dekka það tekjutap sem hefur orðið vegna minnkandi geisladiskasölu.  Um aldamót voru tekjur af tónlistarsölu í Bandaríkjunum í hæstu hæðum, sem verður að þykja nokkuð gott viðmið fyrir sölu í hinum vestræna heimi. Árlegar tekjur voru um 15 milljarðar dala.

Eins og svo oft áður hefst nærri lóðrétt tekjufall um það leyti sem toppi er náð. Leiða má að því líkur að minnkandi tekjur séu í beinu samhengi við tilkomu Napsters og viðlíka forrita. Fyrirtæki sem höfðu hagsmuni að gæta brugðust við með því að hefja sölu tónlistar á netinu. Þar hefur Apple tölvurisi verið leiðandi með iTunes-verslun sinni. Þótt stafræna salan hafi tekið nokkuð við sér á síðustu árum, og fer vaxandi, er óhætt að fullyrða að gullöld útgáfurisanna sé liðin.