Greinendur önduðu margir léttar þegar uppgjör kínversku netverslunarinnar Alibaba var birt fyrir helgi og reyndist betra en reiknað var með. Fyrr í vikunni hafði lélegt uppgjör Tencent kynt undir áhyggjur af heilsu heimshagkerfisins í skugga viðskiptastríðs. Mikill tekjuvöxtur Alibaba upp á 42% á vormánuðum miðað við sama tímabil í fyrra sló hins vegar á þessar áhyggjur.

Rekstrarhagnaður á tímabilinu (apríl-júní) nam 3,1 milljarði dollara sem svk. frétta Financial Times er 27% aukning frá sama tíma á síðasta ári.

Alibaba er í grunninn netverslun en starfsemi félagsins hefur vaxið gríðarlega og tekur nú til miklu fleiri sviða. Tekjuvöxtur félagsins var til að mynda hraðastur á sviði gagnavörslu eða 66% og nam 1,1 milljarði dollara á tímabilinu.