Tekjur kínverska netrisans Alibaba námu 3,2 milljörðum dala á síðasta ársfjórðungi og voru 28% hærri en á sama tíma í fyrra, samkvæmt frétt BBC News . Fjárhæðin jafngildir 422 milljörðum íslenskra króna.

Þessar tölur voru hins vegar undir væntingum greiningaraðila sem gerðu ráð fyrir að tekjurnar myndu nema 3,39 milljörðum dala á tímabilinu. Sala fyrirtækisins jókst um 34% frá fyrra ári. Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hefur lækkað um næstum 7% eftir tíðindin.

Alibaba tilkynnti nýlega kaup sín á tæplega 20% hlut í kínversku raftækjaverslunarkeðjunni Suning fyrir 4,6 milljarða dali. Keðjan er ein sú stærsta í Kína og munu viðskiptavinir hennar nú geta keypt vörur hennar á vefsíðu Alibaba.