Lyfjafyrirtækið Allergan plc, móðurfélag Actavis á Íslandi, skilaði tapi á öðrum ársfjórðungi sem nam 0,8 dölum á hlut. Þetta kemur fram í uppgjöri fyrirtækisins sem birt var í kauphöllinni í New York í dag.

Tekjur fyrirtækisins á tímabilinu jukust um 116% í 5,76 milljarða dali samanborið við 2,67 milljarða dali á sama tíma í fyrra. Ef tekið er tillit til óvenjulegra liða (e. non-GAAP) jókst hagnaður á hlut (e. diluted earnings per share) um 29% í 4,41 dali á öðrum ársfjórðungi 2015, samanborið við 3,42 dali á hlut á sama tímabili 2014. Sé ekki tekið tillit til óvenjulegra liða (e. GAAP) var tap á hlut 0,80 dalir í öðrum ársfjórðungi 2015 samanborið við 0,28 dala hagnað á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu fyrirtækisins kemur fram að afkoma þess hafi orðið fyrir áhrifum af afskriftum, virðisrýrnun rannsóknar og þróunarkostnaðar, kostnaði vegna fyrirtækjakaupa, starfslokagreiðslum og kostnaði vegna samþættingar vegna fyrirtækjakaupa, aðallega vegna kaupa Actavis á Allergan þann 17. mars 2015 og Forest Laboratories þann 1. júlí 2014.