Allergan, móðurfélag Actavis, birti í dag ársfjórðungsuppgjör fyrir fjórða ársfjórðung síðsta árs. Uppgjörið var betra heldur en búist var við en vörumerki félagsins í Bandaríkjunum skiluðu einkar góðum árangri. Félagið segist áfram búast við því að yfirtaka Pfiser muni eiga sér stað á seinni helming þessa árs.

Sala á vörumerkjum félagsins í Bandaríkjunum jókst um 38% og var 2,5 milljarðar dala í fjórðungnum, sem tók enda þann 31. desember sl. Þær tekjur námu 58,7% af heildartekjum félagsins á fjórðungnum. Heildartekjur jukust úr 2,42 milljörðum dala og voru 4,2 milljarðar dala. Allergan tapaði þó naumlega á fjórðungnum, eða um sem nemur 630,9 milljónum dala, en tapið var 732,9 milljónir dala á sama fjórðungi árið áður.

Hlutabréfaverð Allergan hækkaði um rúmlega 3% við birtingu uppgjörsins en verðið hafði lækkað um 12% á síðustu þremur mánuðum.