Rekstur upplýsingatæknifyrirtækisins ANZA hf. og dótturfélagsins Sirius IT gekk vel á fyrsta ársfjóðungi. Tekjur félagsins námu 1.560 milljónum króna samanborið við 211 milljónir árið áður og sexfaldast á milli ára. Mest munar um tekjur frá Sirius IT, en nú er svo komið að 84% af tekjum félagsins koma erlendis frá. Tekjur ANZA hf., hér á landi námu 242 milljónum kr. og aukast um 15% á milli ára að því er kemur fram í frétt félagsins.

Rekstrarhagnaður án afskrifta og fjármagnskostnaðar, EBITDA, nam alls 144 milljónum krónaog hagnaður eftir skatta 70 milljónum kr.

Í nóvember s.l. keypti ANZA hf. hluta af starfsemi norræna upplýsingatæknifyrirtækisins TietoEnator í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í framhaldi af því var stofnað dótturfyrirtækið Sirius IT, nýtt norrænt upplýsingatæknifyrirtæki. Hjá fyrirtækinu starfa um 400 manns og byggir starfsemi félagsins á fjölbreyttu þjónustu- og lausnaframboði fyrir bæði opinbera aðila, sem og stærri einkafyrirtæki. Rekstur Sirius IT hefur farið mjög vel af stað og fyrirtækið áunnið sér mikilvægt traust á markaðnum. Starfsemi ANZA hf. og Sirius IT er nú í fjórum löndum, með mikið lausnaframboð og þjónustur, sem hægt er að bjóða viðskiptavinum milli landa.

ANZA hf. er dótturfyrirtæki Símans hf. og er leiðandi fyrirtæki á sviði upplýsingatækni á Íslandi. Fyrirtækið sérhæfir sig í rekstri og uppbyggingu tölvukerfa, auk ráðgjafar og fjölbreyttar þjónustu sem er sniðin að þörfum viðskiptavina. Hjá fyrirtækinu starfa um 480 manns, þar af 80 á Íslandi og 400 í Skandinavíu