*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Erlent 27. júlí 2016 08:40

Tekjur Apple minnka áfram

Tekjur af sölu iPhone halda áfram að lækka, þó lækkunin hafi verið minni en búist hafði verið við.

Ritstjórn

Annan ársfjórðunginn í röð minnkar sala á iPhone símum Apple fyrirtækisins, en minnkunin sem nam um 15% var ekki alveg jafnslæm og búist hafði verið við.

Seldi bandaríska stórfyrirtækið um 40,4 milljón iPhone síma á síðasta ársfjórðungi, sem er rétt yfir væntingum um 40,02 milljón síma.

Framkvæmdastjóri Apple, Tim Cook sagði að niðurstaðan sýndi „meiri eftirspurn...en við bjuggumst við.“ Væntir fyrirtækið að salan muni halda áfram að minnka á næsta ársfjórðungi, og verði að andvirði milli 45,5 milljarða Bandaríkjadala til 47,5 milljarða dala.

iPhone símar um tveir þriðju hlutar sölu Apple

Eftirspurnin eftir aðalframleiðsluvöru Apple fyrirtækisins hefur verið að minnka undanfarið en iPhone símar eru um tveir þriðju hlutar sölunnar hjá Apple og vega jafnvel meira í hagnaði fyrirtækisins.

Lækkaði hagnaðarhlutfall fyrirtækisins á þeim þrem mánuðum sem ná til 25. júní um 27% niður í 7,8 milljarða dali, meðan tekjur fyrirtækisins lækkuðu um 14,6% niður í 42,4 milljarða.

Salan hrynur í Kína

Salan í stór Kína (sem samkvæmt skilgreiningu fyrirtækisins inniheldur kínverska alþýðulýðveldið sjálft, Hong Kong og kínverska lýðveldið, öðru nafni Taiwan), hrundi um 33%, en fyrirtækið kennir efnahagslegri óvissu í landinu um.

Hlutabréf í Apple hafa lækkað um fimmtung á undanförnu ári, en þau hækkuðu um 7% í kjölfar fréttanna. Góðar fréttir fyrir fyrirtækið eru jafnframt að þjónusta Apple, sem inniheldur App Store, Apple Pay, iCloud og annað er farin að skila meiru, með um 18,9% meiri tekjur miðað við síðasta ár, en þær námu um 6 milljörðum dala fyrir þann hluta rekstrarins.

Stikkorð: Kína Apple iPhone Kína sölutölur