*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 14. nóvember 2019 16:11

Tekjur Arnarlax ríflega tvöfaldast

Laxeldisfyrirtækið Arnarlax skráð á OTC hlutabréfamarkað norsku kauphallarinnar á morgun.

Ritstjórn
Kjartan Ólafsson er formaður stjórnar Arnarlax sem stefnir á skráningu á hlutabréfamarkað í Noregi á morgun.

Rekstrartekjur Arnarlax námu ríflega tveimur milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi í ár samanborið við 922 milljónir á sama fjórðungi 2018. Rekstrarhagnaður (EBIT) á tímabilinu var tæplega 300 milljónir króna miðað við 430 milljón króna tap á þriðja ársfjórðungi síðasta árs. 

Framleiðsla félagsins á fjórðungnum nær tvöfaldaðist milli ára á fjórðungnum en félagið vann 2.300 tonn á tímabilinu samanborið við 1.200 í fyrra. Fiskvinnsla og höfuðstöðvar Arnarlax eru á Bíldudal og félagið elur lax í sjókvíum í Patreksfirði, Tálknafirði og Arnarfirði. Þá rekur félagið seiðastöð í Þorlákshöfn og Tálknafirði, en söludeild Arnarlax er í Hafnarfirði. 

Hlutabréf Arnarlax verða skráð á svokallaðan OTC-markað norsku Kauphallarinnar á morgun. Ekki er um aðalmarkað að ræða heldur markað með minni félög sem lúta takmarkaðri upplýsingaskyldu en viðskipti með bréfin fara í gegnum hlutabréfamiðlara. 

„Þetta er markaður fyrir minni félög sem eru skemmra á veg komin - ekki ósvipað og First North markaði íslensku Kauphallarinnar. Skráningin felur í sér meiri gagnsæi um rekstur félagsins, aðgengi að fjármagni og verðmyndun félagsins,“ segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður og einn af eigendum félagsins, í samtali við Viðskiptablaðið. 

„Arnarlax er í meirihlutaeigu norska fiskeldisfélagsins SalMar sem er skráð félag í Noregi. Það þýðir að meiri kröfur er gerðar til okkar um upplýsingar og árshlutareikninga og skráningin nú er þannig hluti af hluthafasamkomulagi sem gert var við fyrstu hlutafjáraukninguna árið 2014,” segir Kjartan og bætir við að stefnt sé að fullri skráningu félagsins í framtíðinni. „Þetta er mikilvægt og gott skref í þá átt.“ 

Markaðsverð í dag, miðað við gengið 60 norskar krónur á hlut, er rétt rúmir 20 milljarðar íslenskra króna að sögn Kjartans. „Það kemur svo í ljós við skráninguna hvernig markaðurinn metur félagið, en það er ekki eitthvað sem við sem rekum félagið erum að velta fyrir okkur sérstaklega,“ segir Kjartan. 

Samtals fara 10.000 tonn af laxi í gegnum vinnslu félagsins á þessu ári en Arnarlax hefur leyfi fyrir 25.000 tonna elda og segir Kjartan að stefnt sé að því að núverandi leyfi verði fullnýtt eftir þrjú til fimm ár. 

„Það hefur gengið ágætlega og reksturinn er í samræmi við áætlanir og markmið sem við höfum sett okkur. Fiskeldið hefur vissulega sætt mikilli gagnrýni að undanförnu en við getum sagt að þessi staðbundni mótvindur á heimavelli hafi styrkt félagið frekar hitt,“ segir Kjartan.