Tekjur atNorth af íslenskri starfsemi námu 36 milljónum dollara árið 2020, eða um 4,6 milljörðum króna miðað við núverandi gengi, og lækkuðu um tæp 30% frá fyrra ári, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Fyrirtækið, sem starfar á sviði gagnavera, ofurtölva, bálkakeðja og gagnaversþjónustað, segir að arðsemin af starfseminni á Íslandi hafi þó aukist umtalsvert á árinu. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 9,6 milljónum dollara, samanborið við 10,4 milljónir dollara á árinu 2019. EBITDA-hlutfallið árið 2020 nam 27% af tekjum félagsins, en var 20% á árinu 2019. Rekstrarhagnaður atNorth á Íslandi nam 1,6 milljónum dollara á síðasta ári og lækkaði um 2,2 milljónir dollara á milli ára.

Í tilkynningu atNorth segir að reksturinn á síðasta ári hafi markast af áhrifum Covid-19 faraldursins. Eftirspurn á gagnavers- og ofurtölvuþjónustumarkaði hafi dregist saman með hagsveiflunni. Ráðist var í verulega hagræðingu í rekstri og kostnaðarlækkun „sem að hluta er varanleg“. Þá urðu tafir á afhendingu nýs tölvubúnaðar frá birgjum til þess að uppsetningar nýrra verkefna seinkaði með tilheyrandi tæknilegum áskorunum.

„Árið 2020 var merkilegt fyrir margra hluta sakir, en mér er efst í huga sú staðreynd að félagið stóð af sér storminn og sýndi hversu traustum fótum það stendur. Allt frá upphafi hefur rekstur atNorth hérlendis gengið vel, en það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki komi hlaupandi út úr heimsfaraldi. Við náðum að hlúa að innviðum félagsins og styrkja starfsemina á Íslandi til framtíðar, þótt áfram þurfi að takast á við áskoranir á borð við harða samkeppni við önnur lönd sem styðja markvisst uppbyggingu gagnaversiðnaðar og bjóða ódýra græna orku. Við erum bjartsýn og væntum þess að rekstraraðstæður félagsins muni batna verulega þegar hagkerfi heimsins taka við sér á ný,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth.

Fram kemur að mörg fyrirtæki hafi frestað endurnýjun á tæknilegum innviðum sínum og seinkuðu innleiðingu ofurtölvulausna vegna faraldursins. atNorth væntir þess að slíkar fyrirætlanir komi fljótlega til framkvæmda, þegar starfsemi viðskiptavina kemst í hefðbundnara horf. Félagið ráðgerir því að fjárfesta umtalsvert á þessu ári í frekari uppbyggingu og hefur þegar séð merki um aukna eftirspurn.

„Á þessu ári hefur tekjuvöxtur verið töluverður. Umsvif viðskiptavina hafa aukist og nýir bæst í hópinn. Þá ganga framkvæmdir við nýtt og umhverfisvænt hátæknigagnaver okkar í Stokkhólmi í Svíþjóð vel og við reiknum með opnun þess fyrir lok árs,“ segir Eyjólfur Magnús.

atNorth er hátæknifyrirtæki á sviði gagnavera, ofurtölva, blockchain og gagnaversþjónustu sem hönnuð er til að hámarka reiknigetu viðskiptavina. atNorth mun opna gagnaver í Stokkhólmi í Svíþjóð í Desember 2021 en fyrir rekur fyrirtækið tvö gagnaver á Íslandi. Meðal viðskiptavina þess eru bæði alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir sem starfa í fjölmörgum greinum, svo sem við rannsóknir, í heilbrigðisgeiranum, í genarannsóknum, við framleiðslu, í fjármálaiðnaði og veðurfræði.