Tekjur Norðurál Grundartanga ehf. jukust milli ára, en þær námu ríflega 71 milljarði króna árið 2015 samanborið við rúmlega 69 milljarða ári áður, á gengi dagsins í dag. Þrátt fyrir að tekjur félagsins hafi aukist milli ára þá dróst hagnaður félagsins verulega saman milli ára.

Hagnaður félagsins nam 5,6 millj­örðum árið 2015 samanborið við 10,2 milljarða króna. Mestu munar um að framleiðslukostnaður jókst um 5,6 milljarða milli ára.

Fram kemur í ársreikningnum að afkoma félagsins sé mjög háð álverði auk aðgangs að raforku og starfsfólki. Eigið fé félagsins í árslok nam 48,7 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 58,1%. Félagið áætlar að greiða arð til eigenda sem nemur ríflega 4,9 milljörðum króna. Norðurál ehf. á 100% í Norðurál Grundartanga ehf. en Norðurál ehf. er í eigu Century Aluminum.