Bæjarsjóður á Seltjarnarnesi hefur greitt niður langtímaskuldir, aukið þjónustu við íbúa og ráðist í framkvæmdir fyrir sjálfsaflafé, en um leið lækkað álögur á íbúa.

Í bókun meirihluta bæjarstjórnar Seltjarnarness segir að skattgreiðendum sé hlíft við á þriðja hundrað milljónum króna árlega í álögum og þannig sparist hverju heimili hundruð þúsunda króna í opinberum gjöldum á við það sem gerist annars staðar.

„Heildartekjur bæjarsjóðs og fyrirtækja árið 2007 námu rúmum 2.400 milljónum króna og vaxa skatttekjur um 22% milli ára, þrátt fyrir lækkun útsvars og fasteignagjalda. Gjöld samstæðunnar vaxa um 15% á milli ára sem einkum skýrist af launahækkunum, verðlagsbreytingum og aukinni þjónustu sveitarfélagsins við íbúa en reyndust aðeins um 2% umfram fjárhagsáætlun sem ber gerð fjárhagsáætlana bæjarins gott vitni.

Rekstrarniðurstaða aðalsjóðs fyrir árið 2007 nam þannig rúmum 400 milljónum króna sem er um 50% betri afkoma en fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir. Svipaða sögu er að segja um samstæðureikning bæjarins þar sem rekstrarniðurstaða er rúmlega 70% hærri en gert var ráð fyrir og nám um 300 milljónum króna á síðasta ári.

Tekjur ársins jukust þannig verulega umfram forsendur fjárhagsáætlunar eða um 8% sem skýrist annars vegar af aukningu hefðbundinna tekna þrátt fyrir lækkun útsvars og fasteignaskatta og meiri fjármagnstekjum af innistæðum sveitarfélagsins en ráð var fyrir gert.

Engar óvenjulegar tekjur, svo sem sölu á byggingarrétti, var um að ræða á árinu. Því er ljóst að stöðugleiki er í almennum rekstri bæjarins og afkoman árið 2007 í samræmi verulega stígandi í afkomu bæjarsjóðs síðustu ár,“ segir í bókun meirihlutans.