Íbúar í Garðabæ borga langhæsta fasteignaskattinn af íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu eða ríflega 40 þúsund krónur hver íbúi. Í Reykjavík borgar hver íbúi 23 þúsund krónur. Meðaltalið yfir landið allt er ríflega 31 þúsund á hvern íbúa.

Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að fasteignaskattar séu næststærsti tekjustofn sveitarfélaganna, á eftir útsvarinu.

Í heildina námu nettótekjur sveitarfélaganna vegna útsvars um 130,4 milljarða króna í fyrra. Tekjur vegna fasteignaskatta verða 30,1 milljarður á þessu ári samanborið við 28,8 milljarða í fyrra. Tekjurnar aukast því um 1,3 milljarða milli ára. Af þessum rúmu 30 milljörðum eru tæpir 16 vegna atvinnuhúsnæðis, ríflega 10 vegna íbúðarhúsnæðis og 3,9 vegna skatts sem greiddur er vegna sjúkrastofnana, skóla og íþróttahúsa.

Skiljanlega fær Reykjavíkurborg langstærsta hlutann af þessum fjármunum eða tæpa 13 milljarða, þar af eru tæpir 3 vegna íbúðarhúsnæðis og 8 vegna atvinnuhúsnæðis.

Þegar kemur að fasteignaskatti af atvinnuhúsnæði hefur Fljótsdalshreppur mikla sérstöðu. Í sveitarfélaginu búa aðeins 68 manns en það fékk ríflega 106 milljónir greiddar í skatt vegna atvinnuhúsnæðis. Þetta jafngildir tæplega 1,6 milljónum á hvern íbúa og til að setja það í samhengi þá er meðaltalið yfir landið allt 49 þúsund krónur á hvern íbúa og í Reykjavík 66 þúsund.

Vegna hækkunar fasteignamats munu tekjur sveitarfélaga vegna fasteignaskatta aukast töluvert á næsta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .