Hagnaður Brims á þriðja ársfjórðungi þessa árs nam 23,2 milljónum evra. Hagnaðurinn hækkar um 3,3 milljónir evra á milli ára. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri Brims.

Tekjur félagsins af vörusölu voru 116 milljónir evra samanborið við 92 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Auknar sölutekjur skýrast af sölu uppsjávarafurða og aukinni veltu sölufélaga, að því er kemur fram í tilkynningu.

Þá nam EBITDA hagnaður fjórðungsins 34 milljónum evra og jókst hann um 8,4 milljónir evra frá sama tíma fyrra ári. Meginástæða aukins hagnaðar er betri afkoma uppsjávarsviðs, en uppsjávarskip félagsins veiddu 29.300 tonn af makríl og síld á tímabilinu á móti 21.300 tonnum í fyrra.

Þá var botnfiskaflinn 11.300 tonn á tímabilinu á móti 13.200 tonnum á fyrra ári, en helsta breytingin er minni þorskafli.

Heildareignir Brims námu 876 milljónum evra á fjórðungnum, eða sem nemur 123 milljörðum króna miðað við meðalgengið fyrstu níu mánuði árins 2022. Eignir félagsins jukust um rúmar 100 milljónir evra á milli ára, eða sem nemur 14 milljörðum króna miðað við sama gengi.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:

„Afkoma fjórðungsins er góð og ánægjulegt að sjá hvað rekstur félagsins er orðinn stöðugur.  Þrátt fyrir óvissu í Evrópu núna vegna stríðs og mikillar hækkunar á orkuverði  hefur sala á afurðum Brims gengið vel.   Erfitt  er að spá um hvað gerist á okkar afurðamörkuðum á næstu mánuðum en það styrkir Brim að vera með sínar afurðir í mörgum heimsálfum. Sterkt og gott sölunet styrkir alla þætti starfseminnar á tímum eins og núna. Efnahagur félagsins er traustur og eiginfjárstaðan góð og þess vegna getur Brim haldið áfram að fjárfesta í mikilvægum hlekkjum virðiskeðjunnar.

Í október undirritaði Brim samkomulag um kaup á 50 prósenta hlut í dönsku alþjóðlegu sölu- og framleiðslufélagi á sjávarafurðum, Polar Seafood Denmark, og markar það upphaf á samvinnu okkar við þetta sterka félag.  Jafnframt eru þessi kaup liður í að styrkja alla hlekki í virðiskeðju Brims.“