Afkoma Delta Air Lines var neikvæð um 5,4 milljarða Bandaríkjadali, andvirði um 752 milljörðum króna, á þriðja ársfjórðungi. Alla jafna stendur þriðji ársfjórðungur undir meginþorri hagnaðar flugfélaga en Delta hagnaðist um 1,5 milljarða dollara á sama tímabili á síðasta ári. Félagið hefur nú tapað ríflega ellefu milljörðum Bandaríkjadala á síðustu tveimur ársfjórðungum.

Tekjur Delta á þriðja ársfjórðungi drógust saman um þrjá fjórðu milli ára og námu þremur milljörðum Bandaríkjadala. Rekstrarniðurstöður fyrirtækisins eru aðeins undir áætlun greinenda en þegar þetta er skrifað hafa hlutabréf Delta lækkað um tvö prósentustig í dag. Það sem af er ári hafa bréf félagsins fallið um 45%.

Á þriðja ársfjórðungi er talið að Delta hafi eytt eytt um 24 milljónum Bandaríkjadala á dag í rekstur félagsins, jafnvirði 3.343 milljónum króna. Eyðsla þess dróst saman um 44% milli fjórðunga en á öðrum ársfjórðungi eyddi félagið um 43 milljónum Bandaríkjadala dag hvern. Frá þessu er greint á vef CNBC.

Í sumar tjáði stjórnarformaður Play Viðskiptablaðinu að félagið væri „að brenna 200 til 300 þúsund evrum á mánuði í reksturinn“. Það er um 33-49 milljónir króna á mánuði.

Delta fékk hluta af þeim 25 milljörðum Bandaríkjadala sem hið opinbera veitti flugfélögum vestanhafs. Ekki hefur náðst sátt um frekari ríkisaðstoð.