Hagnaður þriðja ársfjórðungs hjá samskiptasíðunni Facebook nam 425 milljónum dala, um 51 milljarði króna. Tekjur Facebook hækkuðu um 60% milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samskiptasíðunni.

Tekjurnar námu 2 milljörðum dala, um 240 milljörðum króna. Tekjurnar námu 1,26 milljörðum dala á sama tíma í fyrra. Hlutabréf félagsins hækkuðu í kjölfar tilkynningarinnar en lækkuðu eftir orðróm um að unglingar notuðust minna við samskiptasíðuna samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins.

Fyrirtæki og félagasamtök þurf að greiða til að ná til „vina"

Mörg íslensk fyrirtæki hafa lagt mikið kapp á að eignast „vini" á Facebook og hafa mörg þeirra kostað talsverðu til að eignast þá.

Undanfarið hefur samskiptasíðan gert breytingar á því hvernig efni birtist á síðum notenda. Meðal breytinga er að vægi vina fyrirtækja, stofnanna, félagasamtaka og annarra sambærilegra slikra síðna, sem fólk hefur sérstaklega líkað við (e. like), hefur minnkað verulega.

Vilji fyrirtækin ná til vina sinna þurfa þau því að kaupa auglýsingu til að vinirnir sjái færslur frá þeim. Telja má víst að þetta hefur haft mikil áhrif á auknar tekjur Facebook á undanförnum mánuðum.