Fyrstu þrjá mánuði ársins 2016 voru tekjur WOW air af hverjum farþega sem flaug með fyrirtækinu að meðaltali 20.725 krónur. Þetta er aukning um meira en þúsund krónur frá fyrsta ársfjórðungi 2015, þar sem meðaltekjurnar námu 19.318 krónum. Sagt er frá þessu á vef Túrista .

Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi félagsins, segir að lengri flugleiðir skýri muninn. Verð flugferða hjá fyrirtækinu hafi farið lækkandi á árinu og því sé ekki hægt að skýra þessa aukningu með tilliti til hækkandi fargjalda. Í fyrra flaug félagið ekki til Bandaríkjanna eða Kanaríeyja, sem það gerir núna.

Farþegafjöldi WOW air meira en tvöfaldaðist og fór úr því að vera 88 þúsund í að vera 193 þúsund manns. Sætanýting yfir vetrarmánuðina var 88% samhliða þessari miklu aukningu farþega á tímabilinu. Skúli segir ánægjulegt að viðskiptamódelið gangi upp á veturna.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku jókst hagnaður WOW á fyrsta ársfjórðungi um talsverðar fjárhæðir - reksturinn var rekinn í 280 milljóna tapi á sama tíma í fyrra en nú skilaði fyrirtækið 400 milljón króna hagnaði á fjórðungnum.