Fyrirtæki sem hafa skilað skattframtali seldu vöru og þjónustu fyrir 3.277 milljarða árið 2011. Þetta er um 212 milljörðum minna að raunvirði en árið áður samkvæmt tölfræðilegri greiningu Páls Kolbeins á skattframtölum fyrir gjaldaárið 2011. Greining Páls er birt í nýútkominni Tíund, fréttabréfi embættis ríkisskattstjóra.

Tekjur af starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti, en hér er aðallega um að ræða starfsemi fjármálafyrirtækja, drógust saman um 198 milljarða milli áranna 2010 og 2011.

„Umfang þessarar starfsemi hefur minnkað um rúman helming frá árunum 2007 og 2008. Tekjur af undanþeginni starfsemi voru um 30,6% af sölu vöru og þjónustu árið 2008 en eru nú komnar niður í 15,9%. Skýringar er vitanlega að leita í minnkandi fjármálaumsvifum í landinu. Tekjur af starfsemi undanþeginni virðisaukaskatti hafa dregist saman um 760 milljarða að raunvirði síðan árið 2008,“ segir í grein Páls Kolbeins í Tíund.