Samanlagðar tekjur fjölmiðla árið 2018 námu 26,3 milljörðum króna sem er um 7% samdráttur frá 2017 miðað við fast verðlag. Samanlagðar fjölmiðlatekjur höfðu vaxið árlega á árunum 2014-2017 samkvæmt frétt Hagstofunnar.

Tekjur af notendum voru um 13,7 milljarðar króna og af auglýsingum ásamt kostun um 12,7 milljarðar króna árið 2018. Helmingur tekanna féllu til sjónvarps og tæpur fjórðungur til dagblaða og vikublaða. Hlutdeild hljóðvarps í tekjum fjölmiðla nám 14% og sitt hvor sjö prósentin féllu til tímarita og annarra blaða og vefmiðla.

Fjölmiðlatekjur árið 2018 eru um 18% lægri frá því að þær voru hæstar árið 2007. Þar munar mest um samdrátt í auglýsingatekjum sem eru nú 30% lægri en árið 2007 reiknað á föstu verðlagi.

Hlutdeild Ríkisútvarpsins af auglýsingatekjum fjölmiðla hélst óbreytt í 16% á milli áranna 2017-18. Heildartekjur RÚV árið 2018 var um 6,4 milljarðar sem eru 24% af samanlögðum tekjum fjölmiðla.