Heildartekjur Flugstöðvar Leifs Eiríksson hf. (FLE) fyrir árið 2006 voru 6.783 milljónir króna sem er 570 milljónir króna meira en árið 2005. Veltufé frá rekstri var rúmlega 2,3 milljarðar og jókst um tæpar 300 milljónir milli ára. Starfsemi FLE skilaði 22 milljónum króna rekstrarhagnaði eftir skatta árið 2006 segir í frétt félagsins.


Á árinu 2006 var fjárfest fyrir 4 milljarða króna í stækkun og breytingar sem hófust á árinu 2005.  Rekstur Íslensks markaðar var formlega lagður af 1. apríl 2006. Vörur sem þar hafa verið seldar frá upphafi fyrirtækisins fyrir 36 árum er nú að finna í verslunum Bláa Lónsins, Inspired by Iceland, Eymundssonar og Rammagerðarinnar Icelandic Gifst Store í flugstöðinni.


Rekstrartekjur samstæðunnar námu tæplega 6,8 milljörðum króna og jukust um 9% frá fyrra ári. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu tæplega 4,5 milljörðum króna og jukust um 6,7% frá fyrra ári.

Samþykkt var á aðalfundi FLE að greiða eiganda fyrirtækisins, íslenska ríkinu, 250 milljónir króna í arð vegna rekstrarársins 2006. Félagið hefur þar með greitt alls 1.500 milljónir kr. í arð í ríkissjóð frá upphafi félagsins.

Á árinu 2006 var fjárfest fyrir 4,3 milljarða króna en heildarfjárfestingin er orðin nær sjö milljarðar króna á árunum 2004-2007. Nú er framkvæmdum lokið að mestu og brottfararsvæðið orðið meira en tvöfalt stærra en áður. Rekstur verslunar, þjónustu og afþreyingar af ýmsu tagi er umfangsmeiri en nokkru sinni fyrr. Við þessa endurgerð og stækkun flugstöðvarinnar er aðstaða og þjónusta við farþega sambærileg við það sem best þekkist í þeim efnum erlendis.

Gísli Guðmundsson, stjórnarformaður FLE vék í máli sínu að þeim miklu breytingum sem hafa orðið á ytra og innra umhverfi Flugstöðvarinnar á þeim tiltölulega skamma tíma sem liðinn er frá því félagið tók til starfa. Brotthvarf Varnarliðsins á sl. ári kallar á enn frekari breytingar og aðlögun á starfseminni á Keflavíkurflugvelli. Móta þarf skýra stefnu um rekstrarfyrirkomulag, skipulagsmál, framtíðaruppbyggingar- og landnýtingaráform flugvallar- og flugstöðvarsvæðisins í heild sinni. Í þeirri vinnu sem er framundan er mikilvægt að samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar sem millilandaflugvallar sé sem best tryggð.