*

mánudagur, 23. september 2019
Innlent 12. september 2019 15:06

Tekjur Hafnarfjarðar tæpir 14 milljarðar

Rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðarkaupstaðar var jákvæð um 123 milljónir króna á fyrri helmingi ársins.

Ritstjórn
Hafnarfjarðarkaupstaður fékk kaupstaðarréttindi 1. júní 1908 og varð þá að sjálfstæðu bæjarfélagi.
Haraldur Guðjónsson

Rekstrarniðurstaða Hafnarfjarðarbæjar á fyrri hluta ársins 2019 var jákvæð um 123 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarafgangur yrði 469 milljónir króna. Helstu frávik eru að framlög jöfnunarsjóðs voru undir áætlun um 116 milljónir króna, aðrar tekjur voru um 102 milljónum króna umfram áætlun og annar rekstrarkostnaður var um 289 milljónum króna hærri en áætlun gerði ráð fyrir.  

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarfélaginu en árshlutareikningur Hafnarfjarðarbæjar var lagður fram í bæjarráði í dag og er aðgengilegur á vefsíðu bæjarins.

Tekjur námu 13.992 milljónum króna sem er 55 milljónir umfram áætlun. Laun og launatengd gjöld eru stærstu útgjaldaliðir sveitarfélagsins og námu þeir 6.734 milljónum króna sem er 35 milljónum krónum hærra en áætlun gerði ráð fyrir. Annar kostnaður var 5.052 milljónir sem er 289 umfram áætlun en stærsta frávikið má rekja til þess að viðhald eigna hefur gengið hraðar en dreifing áætlunar gerði ráð fyrir og aukinn þungi er í þjónustu á fjölskyldu- og barnamálasviði. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir var jákvæð sem nam 1.605 milljónum króna. Afskriftir voru 509 milljónir króna og fjármagnsliðir 973 milljónir króna. Veltufé frá rekstri nam um 1.599 milljónum króna sem er um 11,4% á móti heildartekjum.

Rekstur málaflokka gekk vel og var í takt við áætlanir að undanskyldum frávikum vegna viðhalds á eignasviði og auknum þjónustuþunga fjölskyldu og barnamálsviðs. Stærsti málaflokkurinn er fræðslu- og uppeldismál en til hans var varið um 6.565 milljónum króna, til félagsþjónustu um 2.129 milljónum króna og til æskulýðs- og íþróttamála um 970 milljónum króna.

Heildareignir námu í júnílok samtals 58.652 milljónum króna og höfðu þær hækkað um tæpa 2,7 milljarða á tímabilinu. Heildarskuldir og -skuldbindingar námu samtals 45.750 milljónum króna og hækkuðu um tæpa 2,6 milljarða á tímabilinu,“ segir í tilkynningu Hafnarfjarðarbæjar.