Samstæða Haga hf. hagnaðist um 727 milljónir króna á fyrsta fjórðungi síns rekstrarsárs eftir að hafa tapað 96 milljónum króna á sama fjórðungi í fyrra. Tekjur samstæðunnar námu rúmum 32 milljörðum króna, það er tæpum fjórum milljörðum meira en á sama tíma í fyrra, og var rekstrarhagnaður fyrir afskriftir tæpir 2,3 milljarðar eða milljarði hærri en í fyrra. Rétt er þó að hafa í huga að samanburðartímabilið var í miðri fyrstu bylgju faraldursins.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri samstæðunnar en reikningsár Haga spannar 1. mars til 28. febrúar. Því er um að ræða fyrsta uppgjör félagsins á nýju reikningsári. Eigið fé samstæðunnar nam 25,9 milljörðum í lok tímabilsins og var eiginfjárhlutfallið 41,2%. Afkomuspá stjórnenda gerir ráð fyrir því að EBITDA rekstrarársins verði á bilinu 8,6 til 9,1 milljarðar króna.

Eignir í lok tímabilsins samkvæmt uppgjörinu, sem hefur ekki verið endurskoðað, námu tæpum 62,9 milljörðum og hafa aukist um 1,2 milljarða frá lokum síðasta reikningsárs.Stærstan hluta þess má rekja til aukningar á handbæru fé. Skuldir nema tæpum 37 milljörðum og hafa hækkað um hálfan milljarð. Þá nam söluaukning Olís um 30% miðað við sama tímabil í fyrra.

Í uppgjörinu er þess getið að 80 milljón króna hagnaður hafi verið af sölu á Reykjavíkur Apóteki ehf. Apótekið hefur verið afhent nýjum aðila. Sala á Útilíf, sem samþykkt var í lok mars, fór í gegn í byrjun mánaðar og munu áhrif hennar því koma fram á öðrum fjórðungi. Að endingu keyptu Hagar nýverið helmingshlut í Djús ehf., sem á og rekur Lemon, og er beðið eftir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins vegna kaupanna. Fyrirhugað er að opna Lemon staði á völdum Olís-stöðvum.