Tekjur kínverska tæknifyrirtækisins Huawei á fyrri helmingi ársins lækkuðu um nærri 30% frá fyrra ári og námu 320,4 milljörðum yuan eða um 6.200 milljörðum íslenskra króna. CNBC greinir frá.

Fyrrum Bandaríkjaforsetinn Donald Trump setti Huawei á svartan lista árið 2019 sem kom í veg fyrir að bandarísk fyrirtæki gætu átt viðskipti við kínverska fyrirtækið. Það leiddi meðal annars til að Huawei þurfti að hætta að styðjast við leitar- og hugbúnaðarsmáforrit Google.

Sjá einnig: Huawei saknar þjónustu Google

Hagnaðarhlutfall Huawei hækkaði þó um 0,6 prósentustig milli ára og nam 9,8% sem fyrirtækið rekur til aukinnar skilvirkni. Niðurstaða fjárhagstímabilsins er sögð vera í samræmi við spár stjórnarinnar.

„Við höfum sett okkur stefnumótandi markmið fyrir næstu fimm ár,“ segir Eric Xu, stjórnarformaður Huawei, í tilkynningu fyrirtækisins. „Okkar stefna er að lifa af og gera það á sjálfbæran máta. Við munum gera það með því að búa til raunverulegt virði fyrir okkar viðskiptavini og samstarfsaðila.“

Starfsemi Huawei er sundurliðuð í þrjá flokka: fjarskipti, iðnaðarstarfsemi (sem inniheldur uppsetningu innviða og gagnaveitur) og notendahlutinn, sem inniheldur sölu á raftækjum.

Tekjur af notendastarfseminni (e. consumer business) drógust saman um nærri helming milli ára og námu 135,7 milljörðum yuan á fyrstu sex mánuðum ársins. Huawei segir að salan á dótturfélaginu Honor í lok síðasta árs spili þar stóran þátt. Tekjur af iðnaðarstarfseminni (e. enterprise business) jukust þó um 18% milli ára en fyrirtækið segir að þetta sé vænlegasta starfsemin til að vaxa í ár.

Um 14% tekjusamdráttur var í fjarskiptastarfseminni (e. carrier business) sem selur meðal annars 5G þjónustu. Huawei sagði að tafir hafi orðið á uppsetningu 5G innviða í Kína en að salan hafi vaxið utan kínverska markaðssvæðisins.