Rekstrartekjur í garðyrkjurækt á Íslandi voru 8,3% af heildartekjum í öllum landbúnaði árið 2017 eða 6,1 milljarðar króna af 73,2 milljarða heildartekjum. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýútkominni skýrslu Staðbundin efnahagslegt mikilvægi garðyrkju á Íslandi sem Vífill Karlsson vann fyrir Samtök sunnlenskra sveitarfélaga.

Tekjurnar í garðyrkju jukust um 800 milljónir króna á tímabilinu 2008-2017 eða 13% að raungildi en 13 milljarða króna í öllum landbúnaði. Rekstrartekjur garðyrkjunnar árið 2017 skiptust þannig að 37% var í ræktun á öðru ótöldu grænmeti, rótum og hnýði, 20% í aldingrænmeti og papriku, 17% í kartöflurækt, 15% í blómarækt, 6% í ræktun annarra nytjajurta og 5% í plöntufjölgun

Um 200 fyrirtæki eru í garðyrkju á Íslandi en hefur fækkað um 5,3% á milli tímabilanna 2008-2012 og 2013-2017.

Sé horft til skiptingar rekstrartekna eftir landshlutum er garðyrkja stærst á Suðurlandi eða um 67% og næst stærst á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum ef þeim var slegið saman eða 14% og Norðurlandi eystra eða 9%. Minnst er hún 1% á Norðurlandi vestra. Þegar horft var til vægis garðyrkju innan hvers landshluta kom í ljós að hún var mikilvægust á Suðurlandi þar sem hún vó 1,5% af verðmætasköpun landshlutans og 0,2% á Norðurlandi eystra þar sem hún var næst í röðinni. Á þennan hátt hefur hún minnstu þýðingu á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.

Að mati skýrsluhöfundar verður staða atvinnugreinarinnar að teljast góð þegar horft sé til afkomu hennar, efnahags og stöðu hennar á markaði ásamt kolefnisspori.