Tekjur Símans hf. jukust um tæp fjögur present í fyrra samanborið við árið 2019 og námu 29,4 milljörðum króna. Hagnaður ársins eftir skatta var 2,9 milljarðar króna rúmir og lækkaði um 154 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

EBITDA síðasta ársfjórðungs ársins var 2,9 milljarðar króna og hækkaði um 6,1% frá sama tímabili í fyrra. Hagnaður tímabilsins var rúmlega milljarður og jókst um þriðjung. Eignir félagsins voru metnar á 65 milljarða króna í árslok en skuldir námu 27 milljörðum króna og lækka um milljarð milli ára. Ársverkum fækkaði um 50 milli ára.

„Rekstrarniðurstaða ársins 2020 var vel ásættanleg. Eins og þekkt er settu stórir heimsatburðir mark sitt á þetta óvenjulega ár, en samstæða Símans komst ágætlega frá þeirri raun. Árið byrjaði mjög vel hjá samstæðunni, en ýmis rekstraráhrif komu fram í lok fyrsta ársfjórðungs þegar faraldurinn skall á. Þar má nefna að reikitekjur hurfu að mestu og kostnaður samstæðunnar í erlendri mynt jókst í krónum talið. Eins og hjá flestum fyrirtækjum landsins varð hluti starfseminnar flóknari en fyrr og ýmis verkefni töfðust. Öll fyrirtæki samstæðunnar brugðust hratt við nýjum veruleika og þrátt fyrir mótvind þurfti ekkert þeirra að nýta sér hlutabótaleið eða önnur úrræði hins opinbera,” er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra samstæðunnar, í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Undir lok síðasta árs seldi Síminn dótturfélag sitt, Sensa, til upplýsingafyrirtækisins Crayon. Salan er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins en kaupverð var 3,2 milljarðar króna og fimmtíu milljónum betur. Samkeppniseftirlitið lagði einnig á síðasta ári 500 milljón króna sekt á Símann vegna fyrirkomulags sölu á enska boltanum. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði sektarfjárhæðina í 200 milljónir króna í upphafi árs. Í skoðun er að stefna málinu fyrir dóm.

„Verkaskiptingu milli Símans og Mílu var breytt í upphafi árs 2021 eftir ítarlegan undirbúning síðari hluta ársins 2020. Umsvif Mílu aukast við breytinguna með því að félagið tekur yfir netrekstur sem áður var innan vébanda Símans. EBITDA Mílu eykst samhliða þessum breytingum en EBITDA Símans lækkar á móti. Verður EBITDA beggja félaganna áþekk í ár, en rekstrarumfang, efnahagur og sjóðstreymi Mílu mun vaxa við breytinguna,“ er haft eftir forstjóranum.