*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Innlent 22. júní 2017 14:47

Tekjur jukust um 8% á milli ára

Langtímaskuldir sveitarfélaga hafa lækkað um 174 milljarða króna frá árinu 2009 og hlutfall skulda á móti eignum hefur ekki verið lægra frá árinu 2007.

Trausti Hafliðason
Haraldur Guðjónsson

Tekjur sveitarfélaganna, A- og B-hluta, námu samtals 371 milljarði króna í fyrra, sem er um 8% aukning frá árinu á undan þegar þær voru 343 milljarðar. Tekjuvöxturinn hefur ekki verið meiri síðan árið 2007 þegar hann nam 11%. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslensku sveitarfélögin, sem kemur út í dag. Í skýrslunni er stuðst við ársreikninga 60 af 74 sveitarfélögum landsins en í þessum 60 sveitarfélögum búa 99% af íbúum landsins. Heildarumfang sveitarfélaganna fyrir árið 2016 er byggt á þessum ársreikningum uppreiknuðum í 100%.

Gjöld sveitarfélaganna námu samtals 326 milljörðum króna og jukust einungis um 0,2% milli ára. Stærsti kostnaðarliðurinn er launakostnaður en hann hækkaði um 5 milljarða á milli ára eða 4%. Þótt kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda hafi hækkað nokkuð í fyrra var hækkunin meiri á árunum 2014 og 2015 þegar verið var að undirrita fjölda nýrra kjarasamninga.

Svipaða sögu má segja af lífeyrisskuldbindingum en vegna breyttra forsendna í útreikningum á dánar- og lífslíkum hækkuðu þær töluvert árin 2014 og 2015. Breyting varð á þessu í fyrra en þá námu gjöld vegna breytinga á lífeyrisskuldbindingum 13 milljörðum og lækkuðu þau um 36% frá árinu 2015. Annar rekstrarkostnaður jókst um 1% milli áranna 2015 og 2016. Framlegð af A- og B-hluta sveitarfélaganna hækkaði samanlagt úr 5% í 12% á milli ára.

Hagstæðara lánaumhverfi 

Þar sem tekjur jukust um 8% milli ára en gjöld um 0,2% batnaði rekstrarniðurstaða samstæðnanna fyrir fjármagns- og óreglulega liði og hækkaði úr 18 milljörðum króna árið 2015 í 45 milljarða í fyrra, sem er 152% hækkun. Að teknu tilliti til fjármagns- og óreglulegra liða nam rekstrarniðurstaðan 46,4 milljörðum króna árið 2016 en árið 2015 var hún neikvæð um 2 milljarða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Íslandsbanki Tekjur afkoma skýrsla sveitafélög
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is