Rekstrartekjur Hf. Eimskipafélags Íslands á fyrsta ársfjórðungi þessa árs námu 399 milljón evra eða ríflega 35 milljörðum króna og jukust um 96% samanborið við 2006. Rekstrargjöld námu 388 milljónum evra og jukust um 99% milli ára. Tap félagsins fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2007 nam 7 milljónum evra samanborið við 5 milljóna evra hagnað á tímabilinu árið 2006.

Tap eftir skatta nam tæpum 6 milljónum evra fyrir samstæðuna samanborið við 8 milljónir evra árið 2006. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 18 milljónir evra.

EBITDA félagsins er 32 milljónir evra eða 2,8 milljarðar króna sem lætur nærri að vera fjórðungur af þeirri áætlun sem kynnt var í byrjun rekstrarárs upp á 135 milljónir evra. "Þetta er mikilvægur áfangi þar sem fyrsti ársfjórðungur hjá félaginu er jafnan sá lakasti á árinu," segir Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður félagsins.

Í frétt félagsins kemur fram að reksturinn einkenndist af áframhaldandi aukningu í tekjum svo og yfirtöku á erlendum félögum og samþættingu á rekstri þeirra. Það kallaði á töluverðan kostnað m.a. vegna uppsagna starfsmanna erlendis og fleiri þátta sem munu til lengri tíma skila félaginu betri afkomu. Þetta á t.d. við um uppsagnir starfsmanna hjá Atlas Cold Storage svo og samþættingu á rekstri Kursiu Linija og Containerships.


"Efnahagur félagsins hefur vaxið mikið vegna yfirtöku og kaupa á fyrirtækjum. Félagið er nú að undirbúa sölu á fasteignum Atlas Cold Storage með það í huga að leigja þær til baka. Með því losar félagið um fjármuni og nær þannig að lækka skuldir félagsins sem aftur mun skila sér í betri afkomu þess," segir Magnús í tilkynningunni.