Velta Kerecis jókst um meira en 70% á síðasta reikningsári sem lauk í lok september samkvæmt gögnum sem Viðskiptablaðið hefur séð. Tekjurnar námu tæplega 30 milljónum dollara, eða hátt í fjórum milljörðum króna miðað við um 17 milljónir dollara árið 2020 og 8 milljónir árið 2019.

Rekstraráætlun félagsins gerir ráð fyrir að tekjurnar hækki í um 50 milljónir dollara, um 6,5 milljarða króna, á yfirstandandi rekstrarári sem lýkur í september á næsta ári. Tekjurnar á síðasta ári voru lítillega undir áætlunum stjórnenda sem gerðu ráð fyrir um 31 milljóna dollara tekjum. Um 500 þúsund dollara tap var á rekstraárinu sem samsvarar um 65 milljónum króna.

Rekstrarniðurstaðan á þessu ári er ánægjuleg að sögn Guðmundar Fertram Sigurjónssonar, forstjóra og stofnanda Kerecis. Sér í lagi í ljósi áhrifa heimsfaraldursins á stærstu markaði félagsins. Helsta vara Kerecis er sáraroð unnið úr þorski til að meðhöndla þrálát sár, til dæmis hjá sykursjúkum, í bráðaáverkum og í skurðstofuaðgerðum.

Margfaldað umsvifin í Bandaríkjunum

Kerecis hefur lagt mikla áherslu á að byggja upp sölunetið undanfarin ár, einna helst í Bandaríkjunum.

Fyrirtækið er í dag með um 150 sölumenn í Bandaríkjunum og í þýskumælandi löndum en var með 38 slíka árið 2019. Guðmundur bendir á að markaðurinn í heild sé að vaxa um 10-20% á ári og markaðshlutdeild Kerecis sé enn lág. Því séu umtalsverð tækifæri til vaxtar. „Okkur hefur gengið afskaplega vel að selja sáraroðið síðan við byrjuðum að selja á Bandaríkjamarkaði fyrir um fimm árum."

Kerecis hefur haft skráningu á markað til ítarlegrar skoðunar að undanförnu, og hefur þar verið horft til skráningar í Svíþjóð þar sem vonir standa til að fyrirtækið verði metið á allt að 90 milljarða króna samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins . Þá herma heimildir Viðskiptablaðsins einnig að Kerecis eigi í viðræðum um kaup á bandarísku félagi.

Vöxtur umfram hagnað

Kerecis mun áfram leggja áherslu á vöxt umfram það að skila hagnaði næstu árin að sögn Guðmundar.

„Megin áhersla okkar er að auka markaðshlutdeild okkar og það er ljóst að það mun hafa áhrif á arðsemi félagsins næstu árin. Við gerum fyrir ráð tapi næstu tvö til þrjú árin en að hraður vöxtur haldi áfram. Tapið á því tímabili verður líklega hærra en á síðasta ári þar sem markaðskostnaður mun aukast á ný þegar Covid gefur eftir. Það getur svo vel verið að hluthafar vilji halda áfram að leggja áherslu á vöxt á kostnað arðsemi lengur," segir Guðmundur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .