*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Innlent 27. ágúst 2019 18:45

Tekjur Klappa aukast um 38%

Hugbúnaðarfyrirtækið Klappir grænar lausnir hf. skilaði 32,7 milljón króna tapi á fyrri hluta ársins.

Ritstjórn
Jón Ágúst Þorsteinsson er forstjóri Klappa grænna lausna hf..
Haraldur Guðjónsson

Rekstrartekjur samstæðu Klappa grænar lausnir hf. samkvæmt rekstrarreikningi námu 171,5 milljónum króna á tímabilinu frá 1. janúar 2019 til 30. júní sl. sem er 38% vöxtur frá sama tímabili í fyrra. Tap varð á rekstri samstæðunnar á tímabilinu að fjárhæð 32,7 milljónum króna en á sama tímabili í fyrra var 13,1 milljón króna tap á rekstrinum. 

Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir samstæðunnar 599,3 milljónum króna í lok tímabilsins samanborið við 343 milljónir í fyrra. Aukningin er m.a. tilkomin vegna sameiningar við félagið Stika ehf., en samruninn miðaðist við upphaf árs 2019.  Eigið fé í lok tímabilsins nam 471,7 milljónum króna  og eigið fé í hlutfalli af heildareignum var 78,7%. Heildarskuldir félagsins voru í lok júní 127,5 milljónir króna. 

„Afkoma Klappa á fyrri hluta ársins 2019 var góð og rekstur samkvæmt áætlunum félagsins. Samhliða aukinni vöruþróun voru innviðir félagsins styrktir, kraftur settur í sölu á heimamarkaði og aukin áhersla sett í markaðssetningu og dreifingu á lausnum félagsins á alþjóðamörkuðum.  Áfram verður unnið markvisst að því að stækka félagið bæði með innri og ytri vexti. Áætlanir gera ráð fyrir að það hægi á vextinum á þriðja ársfjórðungi en að fjórði ársfjórðungur ýti undir frekari vöxt þar sem nýir tekjustraumar komi inn og nýjum viðskiptavinum fjölgar hratt,“ er haft eftir Jóni Ágústi Þorsteinssyni, forstjóra félagsins, í tilkynningu með uppgjörinu.