Kínverski tölvuframleiðandinn Lenovo skilaði 829 milljóna dala hagnaði á fyrsta fjórðungi ársins, sem er aðeins 1% aukning frá sama tíma í fyrra. Í frétt BBC segir að tekjur fyrirtækisins hafi hins vegar aukist um 20% á milli ára og námu 46,3 milljörðum dala. Velta Lenovo hefur aukist verulega eftir að fyrirtækið keypti farsímaframleiðandann Motorola í fyrra, en velta farsímadeildarinnar nam á fyrsta fjórðungi þessa árs 9,1 milljarði dala.

Auk kaupanna á Motorola festi Lenovo einnig kaup á hluta af netþjónaframleiðslu IBM og var ætlunin með þessum fjárfestingum að breikka tekjugrunn fyrirtækisins út fyrir einkatölvumarkaðinn.

Lenovo bætti við markaðshlutdeild sína á heimsmarkaði með einkatölvur og nemur hún nú 20,9% af markaðinum öllum, að því er segir í frétt BBC.