Marel var að birta árshlutauppgjör fyrir þriðja ársfjórðung 2015.

Tekjur félagsins á þriðja ársfjórðungi námu 189,1 milljónum evra, eða 26,8 milljarðar íslenskra króna. Tekjur félagsins á þriðja ársfjórðungi í fyrra voru um 26,6 milljarðar og aukast tekjur því lítillega milli ára.

Hagnaður félagsins á ársfjórðungnum nam 14,7 milljón evra, eða 2.084 milljónir króna. Hagnaður þriðja ársfjórðungs í fyrra var 9,8 milljónir evra, eða 1.389 milljónir króna. Hagnaður Marel eykst því um 50% milli ára.

Tekjur fyrstu níu mánaða ársins nema 617 milljónum evra, eða um 87,5 milljörðum íslenskra króna, en tekjur fyrstu níu mánaða ársins í fyrra voru 513 milljónir evra, eða um 72,7 milljarðar króna.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel segir í tilkynningu um uppgjörið:

“Þriðji ársfjórðungur var frábær fyrir Marel með sterku innstreymi pantana og auknum hagnaði. Við höfum skerpt á vöruframboði okkar og straumlínulagað framleiðslukerfið. Á sama tíma og við höfum hagrætt og einfaldað reksturinn hefur sala aukist og þörfum viðskiptavina er enn betur mætt en áður.“