*

sunnudagur, 5. desember 2021
Erlent 20. júlí 2016 16:03

Tekjur Microsoft aukast

Þrátt fyrir minnkandi sölu á einkatölvum og mikils samdráttar í snjallsímasölu, bjargar skýjaþjónustan málunum.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Tekjur Microsoft jukust á síðasta ársfjórðungi, þrátt fyrir að sala á tölvum til einkanota, sem fyrirtækið framleiðir mikið af forritum fyrir, sé ekki jafnmikil og var áður. Jafnframt mistókst fyrirtækinu hrapalega að komast inn á snjallsímamarkaðinn, sem hefur dregið úr sölu á einkatölvum.

Tekjur af Azure tvöfölduðust

Það sem bjargar því að tekjur fyrirtækisins eru að aukast er sala þeirra á skýjalausnum, en tekjur af Azure jukust um 100% á ársfjórðungnum. Azure er skýþjónusta fyrirtækisins, það er gagnageymslulausn yfir netið, sem það setti upp til höfuðs skýþjónustu Amazon sem er stærst á markaðnum.

Einnig jukust tekjur á Office 365, sem er áskriftarþjónusta á gamla Office pakkanum, um 54%, frá fyrirtækjum og 19% frá viðskiptavinum.

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins Satya Nadella, hefur sett skýþjónustu fyrirtækisins í forgang síðan hann tók við fyrir tveimur árum, en fyrrum forstjóri þess, Steven A. Ballmer hélt aftur af þeirri þróun. Hagnaður af skýjalausnum er almennt ekki jafnmikill og af annarri starfssemi fyrirtækisins, en tekjurnar eru að sama skapi stöðugari.

Nokia afskrifað

Fyrirtækið keypti snjallsímarekstur Nokia árið 2014 fyrir 9,4 milljarða Bandaríkjadali, með það að markmiði að skapa sér markaðsstöðu á snjallsímamarkaði, en nú hefur fyrirtækið sagt upp langflestum af þeim sem komu inní fyrirtækið í gegnum kauin, fært niður virði flestra eignanna sem komu til með þeim og dregið úr fjölda seldra snjallsíma.

Hafa tekjur fyrirtækisins af snjallsímasölu dregist saman um 71% frá því fyrir ári síðan.

Stikkorð: Microsoft Amazon Azure Nokia. skýþjónusta