*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 6. maí 2018 17:02

Tekjur námu 5 þúsund milljörðum

Alls voru 72 fyrirtæki í landinu með yfir 10 milljarða í tekjur árið 2016, en samanlagðar tekjur þeirra voru rúmlega 2.300 milljarðar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Árið 2016 voru rekstrartekjur íslenskra fyrirtækja 4.933 milljarðar króna. Er það 24% lægra en árið áður að raunvirði, en árið 2015 náðu rekstrartekjurnar sögulegu hámarki í 6.481 milljarði. Tekjurnar árið 2016 voru þó meiri en árið 2007, þegar þær námu 4.760 milljörðum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein Páls Kolbeins, rekstrarhagfræðings hjá Ríkisskattstjóra, í aprílblaði Tíundar. Í greininni er farið yfir afkomu og eignastöðu fyrirtækja í landinu árið 2016.

Lækkunin í rekstrartekjum milli 2015 og 2016 skýrist fyrst og fremst af óreglulegum þáttum, en þeir hafa gjarnan einkennt rekstrartekjur íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum vegna uppgjörs gamalla hrunsmála. Tekjur af sölu á vörum og þjónustu jukust þannig milli ára um 242 milljarða.

Þá greiddu fyrirtæki á Íslandi 923 milljarða í laun, hlunnindi og launatengd gjöld árið 2016. Er það 88 milljörðum, eða 10,5%, meira en greitt var árið á undan.

Langflest þeirra fyrirtækja sem skila skattframtali eru með fremur litlar eða engar rekstrartekjur. Af þeim 36.743 fyrirtækjum sem voru búin að skila skattframtali fyrir rekstur ársins 2016 voru 11.072, eða rúmlega 30%, ekki með neinar rekstrartekjur. Önnur 21.940 fyrirtæki voru með minna en 100 milljónir í tekjur. Til samans gera þetta tæp 90% fyrirtækja, en samanlagðar rekstrartekjur þeirra voru 393,9 milljarðar, eða 8% rekstrartekna í landinu.

Á hinn bóginn var 1,5% fyrirtækja, eða 551 fyrirtæki, með meira en milljarð í rekstrartekjur. Samanlagðar tekjur þeirra voru 3.624 milljarðar eða 73,5% rekstrartekna fyrirtækja. Þá voru 72 fyrirtæki með meira en 10 milljarða í tekjur. Samanlagðar rekstrartekjur þeirra voru 2.302 milljarðar, eða tæplega helmingur rekstrartekna fyrirtækja í landinu.

Í byrj­un mars sl. höfðu 36.743 lögaðilar skilað skatt­fram­tali rekstr­araðila 2017 vegna rekstr­ar­árs­ins 2016. Skila­frest­ur skatt­fram­tala var í sept­em­ber árið 2017 en fram­töl eru enn að ber­ast. Enn vant­ar skatt­fram­töl fyr­ir liðlega 5.500 fyr­ir­tæki, eða um 13,1% þeirra fé­laga sem eiga að skila. Í greininni segir einnig að skil á skattframtölum hafi farið batnandi allt frá 2010.

Stikkorð: fyrirtæki tekjur RSK