Á fjórða ársfjórðungi ársins 2016 jókst tekjuvöxtur Nýherjasamsteypunnar um 16% að því er fram kemur í ársuppgjöri félagsins.

Tekjuvöxtur félagsins á árinu öllu nam 10,9% frá árinu 2015, en hann var í heildina 14.788 milljónir króna, meðan hann var 4.233 milljónir á síðasta ársfjórðungnum.

Mikill tekjuvöxtur var í hugbúnaðartengdri starfsemi Nýherja á árinu, en við lok fjórða ársfjórðungsins tók félagið við rekstri upplýsingatæknikerfa Arion banka.

Jafnframt segja þeir frá auknum verkefnum í kjarnabankalausnum í fréttatilkynningu um uppgjörið, meðal annars fyrir Landshypotek og SBAB í Svíþjóð.

Helstu upplýsingar:

  • Sala á vöru og þjónustu nam 4.233 mkr á fjórða ársfjórðungi (15,5% tekjuvöxtur frá F4 2015) og 14.788 mkr á árinu 2016 (10,9% tekjuvöxtur frá 2015) [F4 2015: 3.663 mkr, 2015: 13.332 mkr]
  • Framlegð nam 1.108 mkr (26,2%) á fjórða ársfjórðungi og 3.784 mkr (25,6%) á árinu 2016 [F4 2015: 956 mkr (26,1%), 2015: 3.421 mkr (25,7%)]
  • EBITDA nam 335 mkr (7,9%) á fjórða ársfjórðungi og 1.021 mkr (6,9%) á árinu 2016 [F4 2015: 315 mkr (8,6%), 2015: 1.008 (7,6%)]
  • Heildarhagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 180 mkr og 383 mkr á árinu 2016 [F4 2015: 135 mkr, 2015: 328 mkr]
  • Hagnaður á hlut 0,83 [2015: 0,84]
  • Stjórn félagsins leggur til að ekki verður greiddur út arður til hluthafa á árinu 2017
  • Aðalfundur félagsins verður haldinn 3. mars 2017
  • Eiginfjárhlutfall 34% í lok árs en var 28% í lok árs 2015

„Við erum ánægð með nýliðið rekstrarár hjá Nýherjasamstæðunni, enda með þeim betri í sögu félagsins," er haft eftir Finni Oddssyni í tilkynningunni.

„Þrátt fyrir rólega byrjun á árinu var tekjuvöxtur vel viðunandi eða um 11% og var hann mestur í hugbúnaðartengdri starfsemi.

Þar má nefna að viðskiptavinir Tempo eru nú nálægt 10.000 og jukust tekjur þar um 40% á milli ára. Svipaða sögu má segja af Applicon AB, TM Software og hugbúnaðarsviði Nýherja þar sem tekjuaukning er á bilinu 20-45%.

Þrátt fyrir launahækkanir

Þessi árangur náðist þrátt fyrir töluverðar hækkanir á launum vegna kjarasamninga og umtalsverða fjárfestingu í lausnaþróun, þjónustu og öflugri rekstarinnviðum.

Þessi fjárfesting gerir okkur kleift að þjónusta viðskiptavini okkar enn betur og það er afar ánægjulegt að sjá uppskeru umbótastarfs síðustu missera í spennandi samstarfi við fjölda nýrra viðskiptavina, t.a.m. SBAB bankans í Svíþjóð og Arion banka hér heima.

Við finnum fyrir auknum áhuga fyrirtækja og stofnana á úthýsingu upplýsingatæknirekstrar. Þetta er jákvæð þróun, enda höfum við ekki áður verið betur í stakk búin til að sinna slíkri þjónustu fyrir viðskiptavini okkar á hagkvæman og öruggan hátt.“

Eiginfjárstaðan styrkst

Finnur segir að rekstur Nýherja hafi verið í ágætu jafnvægi þrjú síðustu ár, en á þeim tíma hafi eiginfjárstaða styrkst til muna.

„Þrátt fyrir ögrandi rekstrarumhverfi framundan, m.a. vegna samningsbundinna launahækkana, þá gerum við ráð fyrir að grunnrekstur samstæðunnar verði áfram stöðugur.

Við horfum svo til þess að fjárfesta í og nýta okkur fjölda spennandi tækifæra hjá Nýherja, Applicon, TM Software og Tempo. Við erum því í sóknarhug og teljum horfur almennt góðar.“