Tekjur Nýherja í fyrsta ársfjórðungi námu 2.389,5 milljónum króna og jukust um 25% frá sama ársfjórðungi árið áður og er að mestu um að ræða innri vöxt. Rekstrarhagnaður af starfsemi Nýherja var 122,1 milljónir króna en hagnaður eftir skatta og afskriftir nam 105 milljónum króna að því er kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBIDTA) var 144,2 milljónir króna í ársfjórðungnum.


Vörusala og tengd þjónusta jókst um 354,2 milljónir króna  eða 28% samanborið við sama ársfjórðung á síðasta ári og námu tekjur af þessum þætti 1.625,2 milljónir króna í ársfjórðungnum.


Heildartekjur af hugbúnaði, tengdri þjónustu og ráðgjöf innan dótturfélaga Nýherja námu 804,0 milljónum kr og jukust um 20% á milli ára. Rekstrarhagnaður þessarar þjónustu var 68,3 milljónir króna í fjórðungnum og gera áætlanir ráð fyrir að vaxandi hluti af tekjum og hagnaði Nýherja verði af þessum þáttum í starfseminni á næstu árum. Tekjur af starfsemi erlendra dótturfélaga námu 315,9 milljónir króna í fyrsta ársfjórðungi, en tekjur hérlendis voru 2.073,4 milljónum króna. Erlendar tekjur má rekja til starfsemi AppliCon í Danmörku, Bretlandi og Svíþjóð.

Stöðugildi innan Nýherja og dótturfélaga eru samtals 386 og hefur þeim fjölgað um 28 frá áramótum, þar af 13 hjá dótturfélögum.