Tekjur íslenska ríkisins á fyrsta ársfjórðungi 2008 voru 11,5 milljörðum meiri en á sama tíma í fyrra á meðan gjöldin jukust um tæpa 10 milljarða. Hreinn lánsfjárjöfnuður er jákvæður um 26 milljarða króna sem er 24,5 milljörðum hagstæðari útkoma en á sama tíma í fyrra.

Breyting á handbæru fé frá rekstri er jákvæð um 28,4 milljarða, sem er 2,5 milljörðum lakari útkoma heldur en á sama tíma í fyrra.

Ríkissjóður innheimti161 milljarði króna tekjur á fyrsta þriðjungi ársins sem er 8% aukning frá sama tíma í fyrra. Þar af námu skatttekjur og tryggingagjöld 148 milljarði króna og jukust um 7% að nafnvirði á milli ára.

Á sama tíma hefur almennt verðlag hækkað um 5,8% og skatttekjur og tryggingagjöld hafa því aukist um 1,1% að raunvirði.

Aðrar rekstrartekjur námu rúmlega 10,5 milljarði króna og jukust um 10,5% frá sama tímabili í fyrra, en sá liður samanstendur að mestu af vaxtatekjum og tekjum af sölu vöru og þjónustu. Þá var eignasala ríkissjóðs um 2 milljarðar króna á fyrstu fjórum mánuðum ársins.

Tekjur af fjármagnstekjuskatti 25% hærri en í fyrra

Skattar á tekjur og hagnað námu 65 milljarði króna sem er aukning um 11,1% frá sama tíma árið áður. Þar af nam tekjuskattur einstaklinga 31 milljarði króna, sem er 3,5% aukning, tekjuskattur lögaðila 8 milljörðum króna, sem er 2,1% aukning og fjármagnstekjuskattur 26 milljarði króna, sem er 25,5% aukning.

Innheimta eignarskatta nam 3 milljörðum króna. sem er samdráttur upp á 17,8% á milli ára. Stimpilgjöld, sem eru um 80% eignarskattanna, drógust saman um 15,4% á tímabilinu.