Hagnaður PV Hugbúnaðar ehf. sem er betur þekkt sem Plain Vanilla nam á árinu 2014 nam 12,5 milljónum króna, en félagið skilaði tapi sem nemur um 6 milljónum árið áður. Rekstrartekjur fyrirtækisins jukust úr 244 milljónum króna árið 2013 í 873 milljónir króna árið 2014, en rekstrarhagnaður félagsins dróst saman milli ára. Var hann 8,3 milljónir árið 2013 en 2,4 milljónir árið 2014.

Launakostnaður jókst úr 140 milljónum í 623,7 milljónir milli ára og þá jókst skrifstofu- og stjórnunarkostnaður úr 40,8 milljónum króna í 116 milljónir á sama tímabili. Eignir PV Hugbúnaðar námu í árslok 2014 1.125 milljónum króna, en þar af eru kröfur á tengd félög upp á 890 milljónir króna.

Eignarhaldsfélag Þorsteins skilar hagnaði

Hagnaður WhiteRock ehf. nam 33 milljónum króna árið 2014, en árið á undan nam hagnaður félagsins 580 milljónum króna. WhiteRock ehf. er í eigu Þorsteins Baldurs Friðrikssonar, stofnanda Plain Vanilla, og er eignarhlutur hans í félaginu í WhiteRock.

Þessi munur á milli ára skýrist af því að Þorsteinn Baldur fékk tæpar 583 milljónir króna í sinn hlut þegar fjárfestingarfélögin Tencent Holding og Sequoia Capital lögðu hugbúnaðarfyrirtækinu til 22 milljónir dala í hlutafé í lok árs árið 2013.

Allar tekjur félagsins voru fjármagnstekjur, en þær námu tæpum 40 milljónum króna. Eftir skatta er hagnaður, eins og áður sagði, um 33 milljónir. Eigið fé félagsins var jákvætt um tæpar 585 milljónir króna í árslok og skuldir námu tæpum 26 milljónum króna; þar af 6,3 milljónir í reiknaða en ógreidda skatta. Félagið mun greiða 30 milljónir króna í arð á árinu.

Eignir WhiteRock námu í árslok 2014 611,4 milljónum króna og þar af er eignarhlutur þess í PV Hugbúnaði bókfærður á 550 milljónir króna.