Hið íslenska reðasafn skilaði hagnaði upp á 367 þúsund krónur á árinu 2012 samkvæmt ársreikningi félagsins. Reksturinn hefur því batnað frá fyrra ári þegar félagið tapaði rúmlega einni milljón króna.

Hjörtur Gísli Sigurðsson, safnstjóri og eigandi safnsins, sagði á þeim tíma í samtali við Viðskiptablaðið að töluverður kostnaður hefði fylgt því að flytja safnið frá Húsavík til Reykjavíkur. Safnið flutti í nóvember 2011.

Tekjur félagsins hafa rúmlega tvöfaldast á milli ára en seldur aðgangseyrir nam 4,3 milljónum árið 2011 og um 9,6 milljónum árið 2012. Rekstrarkostnaður hefur að sama skapi aukist, nam um 5,6 milljónum árið 2011 en um 9 milljónum á síðasta ári. Þar vegur þyngst húsnæðiskostnaður upp á um 4,3 milljónir króna.