Þær tekjur sem ríkið hefur af hverjum erlendum ferðamanni hafa dregist saman að undanförnu og er svört atvinnustarfsemi talin meðal skýringa á þessu, Greint er frá málinu í Markaðnum á Fréttablaðinu .

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir í samtali við Markaðinn að vandamálið vaxi með auknu umfangi ferðaþjónustunnar. Kennitöluflakk þekkist umtalsvert í ferðaþjónustunni, einkum þegar komi að veitinga- og gistihúsageiranum.

„Síðan þekkjum við það líka að það eru töluverð brögð að því að ferða- þjónustufyrirtæki greiði ekki laun og hafi önnur starfskjör ekki í samræmi við kjarasamninga,“ segir hann. Hins vegar eigi allir atvinnurekendur að vita að þeir eigi að borga skatta.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Markaðinn að skattkerfið sé um margt flókið og þar megi gera úrbætur, þótt um leið sé eðlilegt að bæta skatteftirlit.