Skatttekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi eru tæpur þrír og hálfur milljarður króna skv. fjárlögum 2004. Skipting stimpilgjaldsins eftir tegundum skattstofna eða hópum greiðenda liggur hins vegar ekki fyrir. Þó er næsta víst að verulegur hluti gjaldsins kemur til vegna fasteignaviðskipta og lántöku þeim tengdum. Gróflega má ætla að 1-1,5 milljarður króna komi til vegna lánveitinga Íbúðalánasjóðs og afsala fyrir fasteignum. Þá má ætla að stimpilgjald vegna skuldabréfalána fjármálafyrirtækja til einstaklinga nemi um einum milljarði króna.

Í samantekt sem Samtök atvinnulífsins hafa látið gera kemur fram að með þessum hætti beri einstaklingar um 2,0-2,5 milljarða króna af stimpilgjaldinu eða í kringum 60% skattsins. Líklega leggst þessi skattur þyngst á þá einstaklinga sem eru að eignast eigið húsnæði í fyrsta sinn þar sem lánsfjármögnun er væntanlega hærri hjá þeim en öðrum íbúðakaupendum. Ætla má að skatturinn leggist þyngra á minni fyrirtæki en þau stærri þar sem þau fyrrnefndu hafa minni möguleika á að fá erlent lánsfjármagn.