Á öðrum ársfjórðungi ársins reyndist tekjuafkoma hins opinbera vera jákvæð um 6,6 milljarða króna. Á sama tíma árið 2015 reyndist hún vera neikvæð um 11,6 milljarða króna.

Tekjuafgangurinn nam 1,1% af landsframleiðslu ársfjórðungsins eða sem nemur 2,7% af tekjum hins opinbera. Á sama tímabili fyrir ári síðan var tekjuafkoman neikvæð um 11,6 milljarða, eða 2,1% af landsframleiðslunni.

Tæplega 15% aukning tekna

Heildartekjur hins opinbera á tímabilinu voru 250,1 milljarður sem er 14,9% aukning frá árinu á undan. Bæði skatttekjurnar og arðgreiðslur jukust á tímabilinu meðan dró úr öðrum tekjum.

Á sama tíma jukust heildarútgjöldin um 6,2%, frá 229,3 milljörðum króna árið 2015 til 243,5 milljarða króna árið 2016, aðallega vegna launahækkana.

Heildarfjárhagsstaðan batnað um rúma 330 milljarða

Heildarskuldir ríkisins við lok ársfjórðungsins voru í heildina 1.809 milljarðar, eða 76,8% af vergri landsframleiðslu.

Heildarfjárhagsstaða ríkisins var neikvæð um 534,3 milljarða íslenskra króna, eða 22,7% af VLF, en á sama tíma fyrir árið var hún neikvæð um 39,1% af landsframleiðslunni. Síðan við lok annars ársfjórðungs 2015 hefur því heildarfjárhagsstaða ríkisins batnað um 331,3 milljarða.

Stöðugleikaframlag nálega helmingur tekna

Heildartekjuafgangur ríkisins fyrir fyrstu sex mánuði ársins nam 371,5 milljörðum króna, eða 43,1% af heildartekjum þess.

Þetta kemur til vegna þess að stöðugleikaframlög slitabúa bankanna komu inn þá, en þau námu 384,3 milljörðum. Á öðrum ársfjórðungi er svo 15,3 milljarða arður frá eignum ríkisins í bönkunum.